Færsluflokkur: Kvikmyndir
7.9.2007 | 16:15
Líf annarra - Das Leben der Anderen
Sá þessa snilldarmynd í umdaginn og fannst hún ein sú allrabesta sem ég hef séð á árinu eða lengur.
Myndin gerist í fyrrum austur þýskalandi og fjallar um líf nokkurra listamanna og nokkurra starfsmanna austur þýsku leyniþjónustunnar; Stasi, snemma á níunda áratug síðustu aldar. Listamennirnir eru ofsóttir af leyniþjónustunni og yfirvöldum og líf Stasi-mannanna virðist ganga út á völd og að klifra upp metorðastigann innan flokksins með öllum tiltækum ráðum. Menn eru hleraðir út um allt og ráðskast er með fólk á sjúklegum nótum í öðru hverju húsi. Atburðarásin verður fljótlega mjög spennandi og grátbrosleg. Aðstæður eru orðnar þannig í þessari paranoju þarna að reyni menn að gera eitthvað af viti s.s. hjálpa fórnarlömbum hlerana og ofsókna þá snýst það í höndunum á þeim með ótrúlegum en þó lógískum hætti. Þetta er orðið svo sjúklegt að það eina sem getur breytt einhverju er að stokka uppá nýtt, og sú uppstokkun reyndist vera fall Berlínarmúrsins og upplausn kommúísmans í Evrópu.
Það er nú ekki erfitt að yfirfæra svona ferli yfir á svo margt í lífi fólks.........uppstokkunar er víða þörf....eða eins og maðurinn sagði "Kleppur er víða"
5.8.2007 | 17:01
Hard Candy
er kvikmynd sem gerð var 2006 og leikstýrð af bretanum David Slade. Titillinn er internet-slangur yfir stúlku sem er undir lögaldri.
Úps, þessi er svakaleg. Ég tók hana sem "gamla mynd" á leigunni og ætlaði svosem ekkert frekar að horfa á hana.....bara svona ef það væri tími. Jú, jú það er rigning einn morguninn í síðustu viku og ég ennþá í sumarfríi, þannig að við tengdó skelltum okkur í smá gláp. Ég hafði ekki kynnt mér efni myndarinnar þannig að það kom verulega á óvart, og við tengdó spurðum hvor aðra hvort að við þyldum þetta..... svona snemma dags.
Myndin fjallar um krúttlega unglingsstúlku sem kynnist karlkyns ljósmyndara á fertugsaldri á netinu, hittir hann svo á kaffihúsi, fer með honum heim, setur eihverja ólyfjan í drykkinn hans, sem leyfir henni að binda hann við stól og byrja að pína hann......andlega og líkamlega. Og hún pínir hann og pínir hann og pínir hann. Myndin gerist eiginlega öll heima hjá ljósmyndaranum og þau tvö eru eiginlega einu persónurnar í myndinni. Samt leiðist manni ekki.......heldur nagar neglurnar af spenningi yfir því hvernig og hvenær þessu ljúki og svona hálf- löðrungar sig yfir því að maður skuli yfir höfuð vera að horfa á þetta.
Handritið finnst mér í heild alveg brilljant og samtölin mjög góð á köflum, sem helst í hendur við frábæran leik hjá leikurunum (Patrick Wilson og Ellen Page) Hard Candy fjallar um hluti sem eru óþægilegir og flóknir. Þess vegna vekur hún margar spurningar hjá manni : Hvar dregur maður mörkin varðandi sambönd fólks ? Hvar/hvenær byrja menn akkúrat að vera "barnaníðingar" ? Er sá sem pínir barnaníðing eitthvað siðferðilega skárri en sá sem er verið að pína? Og það eru auðvitað engin skýr svör......en þau eru svosem aldrei í boði þegar um ræðir hið mannlega eða "human condition"
24.7.2007 | 19:38
Factotum
Þessi mynd þótti mér forvitnileg í rekkanum á vídeóleigunni, þó ekki væri nema fyrir titilinn - sem mér finnst svalur.
Factotum is an old word meaning a general servant or a person having many diverse activities or responsibilities. It was made from the Latin command (imperative construction) fac totum ("do/make everything").
Þessi mynd er amerísk en samt verulega óamerísk (þó engar kommaofsóknir). Þarna er á ferð handrit gert eftir skáldsögu Charles Bukowski, þar sem hann er sagður vera að skrifa um sitt "alter-ego" nefnilega Hank Chinaski, sem Matt Dillon leikur af heilmikilli fagmennsku. Ekki hef ég samanburð við bókina en Bukowski hefur að mínu mati sans fyrir áhugaverðum titlum á bókum sínum, dæmi: Ham on Rye, Notes of a Dirty Old Man, Love is a Dog from Hell: Poems.
Myndin fjallar um drykkfelldan rithöfund. Metnaður hans í lífinu tengist ritstörfunum og svo drykkjunni, reyndar er drykkjan sennilega ofar á lista heldur en ritstörfin. Hann á erfitt með að sjá fyrir sér og halda vinnu, uppá íslensku væri óhætt að segja að hann drekki allt frá sér. Ýmislegt dreifir einbeitingu hans, frá ritstörfunum, aðallega þó drykkjan en einnig kvenfólk og fjárhættuspil.
Matt Dillon er góður í aðalhlutverkinu. Það kemst vel til skila að Hank Chinaski sér ekki mikinn tilgang í neinu nema þá helst að skrifa og svona rétt að halda lífi. Þetta er túlkað bæði í gegnum textann en ekki síður í gegnum látbragðið og hreyfingarnar. Göngulag og hreyfingar Hanks eru með því allra þreyttasta og kæruleysislegasta sem sést hefur og svo er passað uppá að draga aðeins úr því hvað Dillon er myndarlegur með förðuninni (er gerður rauður og þrútinn eins og alvöru fyllibitta) og út kemur mjög sannfærandi "glataður snillingur".
Það sem er hrífandi við þessa mynd er að hún nær einhvern veginn að koma til skila hversu afstæð lífsbaráttan er. Upp í hugann kemur bloggið hans Jóhanns bloggvinar míns um hvers vegna fólk mótmælir og hvort það sé einhvers virði. Það hlýtur alltaf að vera afstætt hvað sé þess virði að eyða tíma sínum í og eins margar útgáfur af verðmætamati lífsins eins og það eru einstaklingar. Það eru nefnilega bara til kenningar um mannlegt eðli.....engar staðreyndir. Og hver hefur svo sem rétt til að dæma einn eða neinn......sá hinn sami er þá ekki kominn langt með æðruleysið.
En ef þið eruð að leita að mynd til að hressa ykkur við skulið þið ekki horfa á þessa. Melankólían hressir ekki en það er ágætis bragð af óvenjulegheitunum.
Eftir mikið sólskyn er þunglyndisleg rigning alveg ómetanleg.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 19:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.7.2007 | 14:06
The Departed
Martin Scorsese hefur gert margar góðar myndir en þessi er sú sem höfðar mest til mín. Mér fannst reyndar athygli vert að lesa það einhversstaðar að þetta væri "strákamynd". Það er gott að vera tengd sinni karllægu hlið jafnt og sinni kvenlægu, því að mér finnst þær myndir sem oft eru flokkaðar sem "stelpumyndir" líka oft bæði skemmtilegar og vitrænar.
Aðalleikarar í The Departed eru Leonardo DiCaprio, Jack Nicholson, Matt Damon og með þeim eru svo nokkrir úrvalsleikarar sem hjálpa til að gera úr þessu mjög góða ræmu. Ég sé engan tilgang í því að rekja söguþráð myndarinnar hér en hún fjallar um glæpona og löggur sem allir eru að reyna að ná í skottið á hvor öðrum, þið verðið bara að sjá myndina. Reyndar er þetta endurgerð á Hong Kong myndinni Internal Affairs frá 2002 (leikstjórar Andrew Lau og Alan Mak) , en hana hef ég ekki séð og hef því ekki samanburðinn.
Atburðarásin mynnir á klassískan harmleik eða sögu úr grískri goðafræði og getur að mínu mati kallast dæmisaga - það er allavega alveg hægt að taka þann pól. Þetta getur allavega verið klassísk saga sem hefur verið sögð milljón sinnum og fær mann til að hugsa um uppruna, tryggð, traust/vantraust og tilgang lífsins etc. Að fjalla um þessa hluti í svona löggumynd þar sem allir eru rosa ófullkomnir og mannlegir er mjög flott. Tvær af aðalpersónum myndarinnar lifa tvöföldu lífi og gengur það mjög nærri þeim og ruglar þá í ríminu. Út frá því getur maður spurt sig hvort að til sé nokkurt líf sem sé einfalt (þ.e. ekki tvöfalt) og hvort til sé einhver "rétt" sjálfsmynd. Tragedían í myndinni höfðaði vel til mín, mér finnst harmleikir meira sannfærandi en happy end myndir. Ef þið kannist við orðatiltækið "win, win situation" þá er um að ræða andstæðu þess í The Departed. Er hægt að tala um "loose, loose situation" ??
Að lokum er þetta jú búið hjá okkur öllum.
Kvikmyndir | Breytt 24.7.2007 kl. 19:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)