Víða er valtað yfir mann/konu.

Mér var dálítið misboðið í gær þegar ég brá mér í bíó n.t.t. í Sambíó.  Búið var að færa miðasöluna úr hinu hefðbundna miðasölu-boxi og yfir í sælgætissjoppuna, þannig að versla sér miða tekur mikið lengri tíma nú en áður. Þetta hlýtur að vera gert til þess að spara starfskrafta, s.s. borga minni laun. Það er ekki hleypt inní bíósalinn fyrr en kl. 8 (myndin er auglýst sýnd kl. 8) sem einnig hlýtur að vera gert til að samnýta starfskrafta og þ.a.l. borga minni laun. Sýningarsalurinn var heldur subbulegri í gær heldur en fyrir 2 vikum þegar ég fór síðast í bíó. Þrátt fyrir teppi á gólfum liggur við að maður límist við gólfið í hverju spori vegna storknaðra gos-polla.  Þegar maður er loks sestur í sætið, lafmóður eftir að hafa drifið sig svo rosalega við kaup á miða og poppi og kóki í tæka tíð, þá er bara dritað yfir mann auglýsingum næstu 5-7 mínúturnar og poppið búið þegar myndin sjálf byrjar. Og allt snýst þetta sennilega um peninga.....að græða meira. 

Persónulega held ég að  Árni Samúelsson, eða sá sem á Sambíóin núna,  sé alveg nógu ríkur. Ég vil hækka standardinn á umgjörðinni um þetta mjög svo merkilega og menningarlega fyribæri : að fara í bíó. Mér finnst nær að röfla um þetta hér á netinu heldur en vera hundfúl við þessar 15 ára gömlu stelpur sem vinna í bíóunum.....og hananú.


Fordómar eða

Það er umhugunarvert að heyra A. Hirsi Ali tala um hvernig vesturlandabúar viti ekki og kunni ekki að meta það hvað þeir hafa það gott í vestræna frelsinu. Að þeir hafi enga reynslu af ófrjálsum samfélögum. Þetta er kannski satt en eigum við þá að reyna að hugsa og haga okkur eins og við séum þakklát fyrir það sem við höfum.....með kannski meiri undigefni eða ? Tal hennar bítur í skottið á sér þ.e. í lofsöngnum um frelsið á vesturlöndum talar hún um að það verði að setja innflytjendum skorður og fræða þá um vestræn gildi, án þess þó að þeir þurfi að verða sammála þessum gildum. Samt á að gæta þess að ekkert sé ritskoðað.

En svo er þetta kannski  bara dæmi um að glöggt sé gests augað......og ég bara eitthvað úrill ?


Líf annarra - Das Leben der Anderen

Sá þessa snilldarmynd í umdaginn og fannst hún ein sú allrabesta sem ég hef séð á árinu eða lengur.

Myndin gerist í fyrrum austur þýskalandi og fjallar um líf nokkurra listamanna og nokkurra starfsmanna austur þýsku leyniþjónustunnar; Stasi, snemma á níunda áratug síðustu aldar. Listamennirnir eru ofsóttir af leyniþjónustunni og yfirvöldum og líf Stasi-mannanna virðist ganga út á völd og að klifra upp metorðastigann innan flokksins með öllum tiltækum ráðum. Menn eru hleraðir út um allt og ráðskast er með fólk á sjúklegum nótum í öðru hverju húsi. Atburðarásin verður fljótlega mjög spennandi og grátbrosleg. Aðstæður eru orðnar þannig í þessari paranoju þarna að reyni menn að gera eitthvað af viti s.s. hjálpa fórnarlömbum hlerana og ofsókna þá snýst það í höndunum á þeim með ótrúlegum en þó lógískum hætti. Þetta er orðið svo sjúklegt að það eina sem getur breytt einhverju er að stokka uppá nýtt, og sú uppstokkun reyndist vera fall Berlínarmúrsins og upplausn kommúísmans í Evrópu.

Það er nú ekki erfitt að yfirfæra svona ferli yfir á svo margt í lífi fólks.........uppstokkunar er víða þörf....eða eins og maðurinn sagði "Kleppur er víða"


Spáðu í þig

Mér finnst alltaf áhugavert að spá í fólk. Sérlega áhugavert finnst mér samhengið eða vöntun á samhengi milli persónuleika, lífshlaups, afstöðu til manna og málefna, starfa og fleira. Á köflum get ég verið svo kössótt að láta það fara í taugarnar á mér þegar persóna einhvers hefur áhrif á það hvernig augum ég lít verk eða gjörðir viðkomandi. Dæmi um þetta væri Woody Allen. Myndirnar hans fannst mér alltaf ótrúlega flottar og frumlegar, og finnst enn. En ég verð að viðurkenna að það hafði um tíma áhrif á mig að hann skildi skilja við þáverandi eiginkonu sína til að taka saman við stjúpdóttur hennar.....fannst það á sínum tíma verulega perralegt.....en kona hefur þroskast síðan þá.....og niðurstaða mín með hann er reyndar sú að myndirnar hans eru alveg jafn góðar og þær voru og persónulegt líf hans ræður engu um það hvort ég horfi á myndirnar hans eða ekki.

Við erum öll í svo mörgum og ólíkum hlutverkum í lífinu og ég held að það sé hverri manneskju mjög hollt að aðskilja þessi hlutverk vel. Semsagt að maður sé meðvitaður um það í hvaða hlutverki maður er þegar eitthvað drastískt er sagt eða gert. Það er voða auðvelt að tala um þetta en erfiðara að vita nákvæmlega hvar mörkin liggja milli hlutverkanna og haga sér samkvæmt því. Sérstaklega er þetta erfitt vegna þess að í samskiptum hefur fólk svo misjöfn áhrif á mann að það ræður að einhverju leiti hver framkomu manns er gagnvart því. Dæmi: maður kemur öðruvísi fram við gleðipinnan en fýlupokann.

En það er jafnvægið sem er lykillinn að hverskyns farsæld. Hlutlægni (objectivity) og tilfinningar eru hvorutveggja mikilvægir þættir þegar eitthvað er skoðað eða metið. Tilfinningar eru að mínu mati alltaf raunverulegar þeim sem upplifir þær, burtséð frá því hvort þær tengjast einhverjum staðreyndum og rökum eða ekki. Þetta finnst mér oft gleymast og það er blásið á tilfinningar sem eitthvað óraunverulegt. Vitrænna finnst mér að taka tillit til tilfinninga fólks og reyna að skilja hvaðan þær koma. Þannig aukast líkur á skilningi og sátt ólíkra sjónarmiða. 

Þetta finnst mér að ætti að viðhafa jafnt í mjög smáum samfélögum (2 vinir eða fjölskylda) og mjög stórum samfélögum (heimsþorpið). 

Eitthvað á þessa leið voru pælingar mínar þegar ég lá í garðinum og horfði uppí loftið á sunnudaginn og sá að skýjamynstrið sem þakti himininn var næstum alveg eins og mynstrið í lófanum á mér.


Bolur, um bol

Mig langar í svona bol, frá Unicef !  ég er samt enginn bolur.......og vinur minn sem á stærsta bolasafn sem ég veit af, hann er heldur enginn bolur. 

Svona geta hlutirnir nú verið afstæðir.


mbl.is Bestu bolir í heimi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanillu- heilkenni

 Þeir sem eru haldnir heilkenninu "hef aldrei lent í neinu" eru hér með kallaðir "vanillur".  Þetta ákváðum við í vinnunni í dag.

Sem sagt ef þú hefur átt bara svona uppbyggilega og hamingjusama barnæsku, aldrei upplifað stríðsástand, aldrei misst fjölskyldumeðlim fyrir aldur fram, aldrei verið í dópi, ekki lent í skilnaði eða yfirhöfðu neinu veseni sem gæti verið skemmandi þá ertu "vanilla".

Í umfjölluninni um Lúkasar-málið kom líka fram einn góður frasi yfir svipaðan hlut;  sá sem er "vanilla" gæti líka verið "alinn upp á þurrmat".

............af því mér finnst gaman af svona niðursoðnum  málfarspælingum.


Viðbrögð við gagnrýni verð gagnrýni ?

Það vakti athygli mína í Kastljósi í kvöld að vegamálastjóri fór ekki í vörn og þrætti ekki fyrir þau mistök sem hans stofnun virðist hafa gert varðandi Grímseyjarferjuna. Hann sagðist bera ábyrgðina og ætla að taka tillit til þeirra alvarlegu athugasemda sem komu fram í skýrslu um málið.

Athygli mín var vakin vegna þess að það er svo langt síðan ég hef heyrt einhvern embætttismann, eða nokkurn mann með völd tala svona. Það sem maður er vanur er að það er farið í vörn, stokkið íniðrí  skotgrafir; hótað málsókn eða krafist rannsókna þegar einhver leyfir sér að gagnrýna hlutina. Mér dettur í hug dæmi s.s.  þegar neytendasamtökin könnuðu verðlagninguna hjá Bónus og fleirum eða þegar einhver leyfir sér að gagnrýna verk Björns Bjarnasonar....

.....bara svona pæling.


Grýla lifir.

Ég dreg ekki sannleiksgildi þessarar fréttar í efa en ég virðist aldrei detta um neinar fréttir frá Íran, eða um Íran nema í þessum dúr. Siðasta frétt sem ég sá á mbl eða í Mogganum um Íran var frétt um að dauðadómi yfir einhverju fólki hafði verið framfylgt í Íran. Það er einhver grýlu-lykt af þessu.......rússagrýla, íslamgrýla.


mbl.is Umbótasinnuðu dagblaði lokað í Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hard Candy

er kvikmynd sem gerð var 2006 og leikstýrð af bretanum David Slade. Titillinn er internet-slangur yfir stúlku sem er undir lögaldri.

Úps, þessi er svakaleg. Ég tók hana sem "gamla mynd" á leigunni og ætlaði svosem ekkert frekar að horfa á hana.....bara svona ef það væri tími.  Jú, jú það er rigning einn morguninn í síðustu viku og ég ennþá í sumarfríi, þannig að við tengdó skelltum okkur í smá gláp. Ég hafði ekki kynnt mér efni myndarinnar þannig að það kom verulega á óvart, og við tengdó spurðum hvor aðra hvort að við þyldum þetta..... svona snemma dags.

Myndin fjallar um krúttlega unglingsstúlku sem kynnist karlkyns ljósmyndara á fertugsaldri á netinu, hittir hann svo á kaffihúsi, fer með honum heim, setur eihverja ólyfjan í drykkinn hans, sem leyfir henni að binda hann við stól og byrja að pína hann......andlega og líkamlega.  Og hún pínir hann og pínir hann og pínir hann. Myndin gerist eiginlega öll heima hjá ljósmyndaranum og þau tvö eru eiginlega einu persónurnar í myndinni. Samt leiðist manni ekki.......heldur nagar neglurnar af spenningi yfir því  hvernig og hvenær þessu ljúki og svona hálf- löðrungar sig yfir því að maður skuli yfir höfuð vera að horfa á þetta.

Handritið finnst mér í heild alveg brilljant og samtölin mjög góð á köflum, sem helst í hendur við frábæran leik hjá leikurunum (Patrick Wilson og Ellen Page)  Hard Candy fjallar um hluti sem eru óþægilegir og flóknir. Þess vegna vekur hún  margar spurningar hjá manni : Hvar dregur maður mörkin varðandi sambönd fólks ?  Hvar/hvenær byrja menn akkúrat að vera "barnaníðingar" ? Er sá sem pínir barnaníðing eitthvað siðferðilega skárri en sá sem er verið að pína? Og það eru auðvitað engin skýr svör......en þau eru svosem aldrei í boði þegar um ræðir hið mannlega eða "human condition"


Alvöru gervigreind

Frábærlega flott hjá Yngva og félögum - til hamingju !
mbl.is Íslenskur hugbúnaður sigraði í keppni alhliða leikjaforrita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband