21.8.2007 | 19:15
Spáðu í þig
Mér finnst alltaf áhugavert að spá í fólk. Sérlega áhugavert finnst mér samhengið eða vöntun á samhengi milli persónuleika, lífshlaups, afstöðu til manna og málefna, starfa og fleira. Á köflum get ég verið svo kössótt að láta það fara í taugarnar á mér þegar persóna einhvers hefur áhrif á það hvernig augum ég lít verk eða gjörðir viðkomandi. Dæmi um þetta væri Woody Allen. Myndirnar hans fannst mér alltaf ótrúlega flottar og frumlegar, og finnst enn. En ég verð að viðurkenna að það hafði um tíma áhrif á mig að hann skildi skilja við þáverandi eiginkonu sína til að taka saman við stjúpdóttur hennar.....fannst það á sínum tíma verulega perralegt.....en kona hefur þroskast síðan þá.....og niðurstaða mín með hann er reyndar sú að myndirnar hans eru alveg jafn góðar og þær voru og persónulegt líf hans ræður engu um það hvort ég horfi á myndirnar hans eða ekki.
Við erum öll í svo mörgum og ólíkum hlutverkum í lífinu og ég held að það sé hverri manneskju mjög hollt að aðskilja þessi hlutverk vel. Semsagt að maður sé meðvitaður um það í hvaða hlutverki maður er þegar eitthvað drastískt er sagt eða gert. Það er voða auðvelt að tala um þetta en erfiðara að vita nákvæmlega hvar mörkin liggja milli hlutverkanna og haga sér samkvæmt því. Sérstaklega er þetta erfitt vegna þess að í samskiptum hefur fólk svo misjöfn áhrif á mann að það ræður að einhverju leiti hver framkomu manns er gagnvart því. Dæmi: maður kemur öðruvísi fram við gleðipinnan en fýlupokann.
En það er jafnvægið sem er lykillinn að hverskyns farsæld. Hlutlægni (objectivity) og tilfinningar eru hvorutveggja mikilvægir þættir þegar eitthvað er skoðað eða metið. Tilfinningar eru að mínu mati alltaf raunverulegar þeim sem upplifir þær, burtséð frá því hvort þær tengjast einhverjum staðreyndum og rökum eða ekki. Þetta finnst mér oft gleymast og það er blásið á tilfinningar sem eitthvað óraunverulegt. Vitrænna finnst mér að taka tillit til tilfinninga fólks og reyna að skilja hvaðan þær koma. Þannig aukast líkur á skilningi og sátt ólíkra sjónarmiða.
Þetta finnst mér að ætti að viðhafa jafnt í mjög smáum samfélögum (2 vinir eða fjölskylda) og mjög stórum samfélögum (heimsþorpið).
Eitthvað á þessa leið voru pælingar mínar þegar ég lá í garðinum og horfði uppí loftið á sunnudaginn og sá að skýjamynstrið sem þakti himininn var næstum alveg eins og mynstrið í lófanum á mér.
Athugasemdir
Viturlega og skýrlega mælt, elsku kona. Gæti talað um þetta endalaust við þig, - gerum það síðar!!
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 21.8.2007 kl. 22:08
Góð skrif. er því miður orðin of syfjuð nuna... hlakka til að lesa þetta á morgun, takk.
Marta B Helgadóttir, 21.8.2007 kl. 23:23
Marta B Helgadóttir, 23.8.2007 kl. 02:47
Sæl. Nú er bókalistinn tilbuinn a siðunni minni.
Marta B Helgadóttir, 27.8.2007 kl. 02:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.